Fáanlegt á nokkrum tungumálum
Sjálfsmatspróf sem þú tekur til að kortleggja stafræna hæfni þína
2023 Center for digital dannelse
Eftirfarandi færðu út úr þínu hæfnihjóli
Persónulegt hæfniyfirlit
Sextán hæfnisvið eru greind á þínu persónulega hæfnihjóli
Ráðleggingar sniðnar að þér
Þrjú svið sem þér er ráðlagt að einbeita þér að til að styrkja stafræna hæfni þína
Dæmi
Fimmtíu dæmi um mismunandi svið stafrænnar hæfni
Æfingar
184 æfingar og hvetjandi dæmi
Um stafræna hæfnihjólið
Markmiðið með stafræna hæfnihjólinu er að veita yfirsýn yfir hvaða mismunandi stafrænu hæfnisvið eru til og skipta máli, ásamt beinum uppástungum um hvernig auka megi hæfni á mikilvægustu sviðunum.
Stafræna hæfnihjólið var búið til af Center for digital dannelse, sem frá árinu 2009 hefur einbeitt sér að málefnum er varða stafræna hæfni og fræðslu því tengdu.
Stafræna hæfnihjólið er fjármagnað af DIGCOMP, stóru rannsóknarverkefni hjá Evrópusambandinu, sem sett var á fót í kjölfar þess að Evrópuþingið útnefndi stafræna hæfni sem eitt af átta kjarnahæfnisviðum símenntunar. Þýðing og kostun vefsins á Íslandi er fjármögnuð af VR.
Eftir Anders Skov, 2016 Center for Digital Dannelse. Gefið út á vefnum í mars 2016
Tæknin er í stöðugri þróun og opnar sífellt á nýja möguleika. Skilgreiningin á stafrænni hæfni er því síbreytileg og skal ávallt skoðast með hliðsjón af tæknilegu samhengi nútímans og hvernig við tileinkum okkur hana í leik og starfi.
Ekki eingöngu áþreifanleg kunnátta
Mælingar á stafrænni notkun og netnotkun í Evrópu snúast nú meira um að greina aðgang og notkun en raunverulega hæfni (þ.e. að mæla gæði, viðhorf og aðferðir við notkun). Það að kunna á helstu stafrænu tólin og geta bjargað sér í netumhverfi er þó aðeins fyrsta skrefið í átt að framúrskarandi stafrænni hæfni. Þróun stafrænnar hæfni ætti að vera áframhald á kunnáttu á tæki og tól, og felast sífellt meira í hæfnisviðum sem krefjast virkrar þátttöku, samskipta, gagnrýni og skipulags.
Stafræn hæfni samanstendur af viðeigandi þekkingu, færni og viðhorfi til þess að nota tæknina til að vinna verkefni og leysa vandamál, eiga í samskiptum og samvinnu, vinna með upplýsingar, búa til efni og deila því með öðrum á skilvirkan, hagkvæman, öruggan, gagnrýninn, skapandi, sjálfstæðan og siðferðislega réttan hátt.
Mikil notkun er ekki ávísun á hæfni
Aukin tölvu-, síma- og netnotkun eykur ekki sjálfkrafa getu fólks til þess að nýta sér tækni á mismunandi sviðum. Mikil notkun þýðir ekki endilega að einstaklingurinn öðlist hæfni í að beita gagnrýninni hugsun við leit og mat á upplýsingum. Það er mjög einfalt að viðhalda sama hæfnistigi og halda sig við að nota eingöngu sömu forritin. Þess vegna skal ekki líta svo á að mikil tækninotkun jafngildi mikilli stafrænni hæfni. (Van Deursen, 2010).
Símenntun
Ljóst er að skilgreining á stafrænni hæfni mun breytast og aðlagast áframhaldandi tækninýjungum framtíðarinnar. Stafræna hæfnihjólið er til þess fallið að styðja við og stuðla að frekari hæfni einstaklinga samkvæmt skilgreiningu á stafrænni hæfni hér að ofan og byggir á þeim rannsóknum og kenningum sem settar hafa verið fram.
Hér má lesa hvernig stafræn færni er kortlögð og skilgreind í stafræna hæfnihjólinu. Skilningurinn á hugtakinu „stafræn hæfni“ er svo margbreytilegur að ekki hefur náðst samkomulag um neina eina skilgreiningu á því. Hið sama á við um flest hugtök sem við koma stafrænum verkfærum og ferlum. Ástæða þessa er meðal annars sú að tækniþróunin er ótakmörkuð og gífurlega hröð og sífellt verða til nýjar aðferðir og ný markmið. Sem dæmi má nefna tölvukennslu, stafræna þjálfun, þjálfun í miðlanotkun og upplýsinganotkun, rafræna kennslu o.fl. Þessi svið hafa skotið upp kollinum samhliða tækniþróuninni eftir því sem samfélagið áttar sig betur á þörfinni fyrir þessa nýju hæfni.
Sú staðreynd að til eru margar og mismunandi skilgreiningar á hugtakinu segir ýmislegt um hvað í því felst. Allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla ekki lengur um aðgang að tækni eða notkun á henni, heldur um getuna til að nýta hana á þýðingarmikinn hátt, í námi, starfi og einkalífi.
Í meginatriðum er hægt að skipta þessum fjölda hugtaka og skilgreininga í tvennt, eftir því hvernig þeim er lýst: A) Á hugmyndafræðilegu plani, þar sem hugtakinu er lýst óhlutbundnu (abstrakt), og er þar af leiðandi ekki jafn háð tæknilegum breytingum. B) Með því að greina tiltekna þekkingu, getu og viðhorf, sem skiptir meginmáli í heildarskilgreiningunni. Það felur í sér að koma auga á þá þætti sem geta nýst við að meta getu fólks á völdu sviði og skipuleggja markvissa þjálfun á þeim. Stuðst var við síðari nálgunina við þróun stafræna hæfnihjólsins, þar sem hún styður markvisst við markmiðin sem við viljum ná fram. Hún er þó samtímis í eðli sínu háðari þeim stafrænu verkfærum sem í notkun eru hverju sinni, og þarfnast því reglulegrar endurskoðunar.
Líta skal á stafræna hæfni sem þann eiginleika að nýta þekkingu sína, getu og viðhorf allt í senn í mismunandi aðstæðum í lífinu. Því hefur stafrænni hæfni verið skipt í þrjá meginþætti: 1) Verkleg hæfni í notkun stafrænna verkfæra og miðla. 2) Tæknimiðuð þekking, fræði og reglur. 3) Viðhorf til markvissrar tækninotkunar, heiðarleiki, gagnrýnin hugsun, sköpunargáfa, ábyrgð og sjálfstæði.
.Markmiðið með þessari þrískiptingu stafrænnar hæfni er að vekja athygli á því að ekki er hægt að ganga út frá því að mikil tækninotkun leiði sjálfkrafa til stafrænnar hæfni. Sem dæmi má nefna rannsókn sem leiddi í ljós að 19,5% svarenda ákváðu að leita ekki til læknis eftir að hafa aflað sér upplýsinga á netinu, og 7,9 % svarenda ákváðu að fylgja ekki fyrirmælum læknis, af sömu ástæðu (Ala-Mutka, 2008). Þess konar svarendur hafa þekkingu á því hvernig leita megi uppi slíkar upplýsingar og nauðsynlega getu til að leita og finna upplýsingarnar í vafra. Þá skortir hins vegar gagnrýninn skilning á efninu sem þeir finna og taka afstöðu ekki endilega út frá nægilega traustum grunni.
Þekking er afrakstur upplýsingaöflunar sem til verður við nám. Þekking er samansafn staðreynda, kenninga, lögmála og hefða sem tengjast starfsgrein eða námi. Þekkingu má lýsa sem fræðilegri eða byggðri á staðreyndum.
Dæmi
Verkleg þekking er til dæmis þekking á nýrri tækni og hvernig hana má nýta til að gera núverandi ferli skilvirkari.
Þekking á samskiptum felst til dæmis í því að þekka kenningar og áhrif mismunandi miðla, ásamt því að þekkja fjölda forrita til stafrænnar samvinnu.
Upplýsingahæfni nær til dæmis yfir það að þekkja mismunandi leitarvélar, sjálfsafgreiðslulausnir, geymslulausnir og leiðir til að sannreyna áreiðanleika tiltekinna upplýsinga.
Leikni er hæfileikinn til að leysa verkefni eða vandamál, en einnig má tala um verklega leikni, en það er getan til þess að nota tiltekna aðferð, efnivið eða verkfæri.
Dæmi
Verkleg leikni felst meðal annars í því að geta nýtt sér fjölda forrita til að búa til eða breyta stafrænu efni af ýmsu tagi.
Samskiptaleikni snýst til dæmis um notkun aðferða og forrita til að leysa verkefni sem felast í samskiptum við aðra.
Upplýsingaleikni felst meðal annars í því að kunna að nota rafræn skilríki, finna upplýsingar fyrir tiltekið verkefni eða umbreyta skrá yfir á annað snið.
Viðhorf okkar og skoðanir lýsa því hvernig við hugsum og hvað rekur okkur áfram. Þess vegna hafa viðhorf okkar mikil áhrif á það hvernig við notum stafræna tækni. Þessi þáttur nær meðal annars yfir siðferði, gildi okkar og það sem við setjum í forgang, sem og ábyrgð, samvinnu og sjálfstæði.
Dæmi
Með viðhorfum í verklegri hæfni er til dæmis átt við siðferðileg mál, svo sem hvernig efni er búið til og deilt.
Viðhorf til samskipta getur til dæmis falist í því hvort maður sjái ávinning og tilgang í því að eiga samskipti við aðra í gegnum stafrænan miðil, og að gæta þess að velja orð sín vel svo ekkert misskiljist.
Viðhorf til upplýsinga felur til dæmis í sér virka afstöðu, greiningu og gagnrýni á þeim stafrænu upplýsingum sem unnið er með.
Sú aðferð sem valin er við þjálfun á hæfni á tilteknu sviði fer eftir því að hvaða námsþætti er mest þörf á að einbeita sér fyrst. Til dæmis er hægt að bæta við sig þekkingu með því að lesa bók, en færni má auka með því að leysa afmarkað vandamál eða verkefni.Viðhorf er mikilvægasti þátturinn, og jafnframt sá sem er erfiðast að vinna með, því flest látum við stjórnast af viðhorfum okkar. Til að breyta þeim getur þurft að breyta gömlum venjum, auka traust okkar á stjórnendum, vera hvetjandi í samræðum, útskýra skoðanir okkar betur, slá af kröfum okkar á fundum, taka virkan þátt í breytingum o.s.frv.
Sviðin eru háð hvert öðru og verða að haldast í hendur. Til dæmis fylgir viðhorfsbreyting oft í kjölfarið á frekari þekkingu á ákveðnu sviði. Eins hvetur áhugi á einhverju sviði (jákvætt viðhorf) til frekari þekkingaröflunar.
Á tímum iðnbyltingarinnar snerist líf manneskjunnar að mestu um vinnuna (yfirmaður, samstarfsfólk og undirmenn), heimilið (faðir, móðir, börn) og félagsskap (félagar og andstæðingar). Þetta voru aðskildir heimar þar sem skörun var lítil sem engin. Í upplýsingasamfélagi nútímans er frekar talað um mismunandi svið lífsins, þar sem þau eru fleiri en áður og þau skarast víða. Þessi svið eru til dæmis vinnan, heimilið, fjölskyldur, áhugamál, vinir og neyslumynstur.
Mælanlegir þættir stafrænnar hæfni verða að vera nægilega víðtækir og fjölbreyttir til þess að ná yfir þá kosti og galla sem tengjast beitingu stafrænnar hæfni á öllum sviðum lífsins, hvort sem það er sem starfsmaður, almennur borgari, neytandi eða í frítíma. Í stafræna heiminum er svo mikil skörun milli þessara sviða að það er þýðingarlaust að ætla að skilja þau að. Það getur auðvitað verið mismunandi hvaða hæfni nýtist í vinnu annars vegar og frítímanum hins vegar, en í víðara samhengi er að finna mikla skírskotun, til dæmis í viðhorfum, aðferðum, siðferði og þekkingu á stafrænum upplýsingum, samskiptum, framleiðslu og öryggi. Þetta merkir einnig að stafræn hæfni sem einstaklingur tileinkar sér og notar á einu sviði lífsins getur yfirfærst á annað svið. Verra er þó að þetta á líka við um slæmar venjur.
Svið sem verða fyrir áhrifum af stafrænni hæfni
Því skal líta á þessar grunneiningar stafrænnar hæfni með hliðsjón af kostum og göllum í víðu samhengi, á öllum sviðum lífsins og út frá öllum námsþáttum. Stafræn hæfni getur gagnast fólki á mismunandi hátt. Hér á eftir eru nokkur dæmi frá mismunandi sviðum lífsins, þar sem stafræn hæfni eða skortur á henni hefur áhrif.
Með aukinni notkun samfélagsmiðla er mikilvægt að notendur geri sér grein fyrir því að ef þeir líta þessa miðla ekki gagnrýnum augum og huga ekki að aðgangsstillingum getur það leitt til þess að þeir missi persónuupplýsingar sínar í hendur annarra (s.s. þriðju aðila í auglýsingaskyni).
Tölvukunnátta skiptir sífellt meira máli þegar sótt er um vinnu, vegna þess að þörf er á tölvulæsu fólki á öllum sviðum atvinnulífsins og í nær öllum störfum. Rannsóknir hafa sýnt að atvinnuleitendur sem kunna að nota internetið eru líklegri til að fá það starf sem þeir óska helst, og fá hærri laun. Til dæmis leiddi ein rannsókn í ljós að 58% töldu stafræna tækni hafa hjálpað sér að finna gott starf (Van Deursen, 2010).
Ef fólk setur persónuupplýsingar sínar á netið er hætta á að auðkenni þess verði stolið eða að það verði fyrir áreitni eða öðrum óæskilegum atvikum. Til viðbótar við þessar hættur getur fólk einnig orðið fyrir tæknilegum árásum, svo sem vegna spillibúnaðar eða vírusa, sem sendir viðkvæmar upplýsingar til óprúttinna aðila (s.s. aðgangsorð inn á netbanka, innskráningarupplýsingar inn á opinbera vefi o.s.frv.).
Birting persónulegra upplýsinga markar varanleg spor sem geta haft áhrif á atvinnumöguleika seinna meir. Til dæmis sýndi rannsókn að um helmingur atvinnurekenda notaði samfélagsmiðla til að kynna sér umsækjendur og að 35% þeirra höfðu fundið efni sem varð til þess að umsækjandi var ekki ráðinn (Careerbuilder, 2009). Þar má nefna sem dæmi óviðeigandi ljósmyndir, skoðanir, áfengis- og fíkniefnanotkun eða illt umtal um samstarfsfólk.
Fólk getur gert sjálfu sér óleik, en ekki síður öðru fólki. Oft kemur fyrir að fólk birti viðkvæmar upplýsingar um vini sína og félaga – oftast í gríni (Get Safe Online, 2007). Ef slíkt gerist milli vinnufélaga getur það haft afleiðingar og talist til agabrots (Proofpoint, 2007). Oft þekkir fólk heldur ekki þau lög og reglur sem gilda (Chou o.fl., 2007).
Í skólum er neteinelti áhyggjuefni, bæði meðal nemenda og kennara, og heil 43% nemenda hafa upplifað einelti á netinu (Palfrey, Sacco, Boyd, DeBonis og Tatlock, 2008). Ein rannsókn leiddi í ljós að foreldrar eru meðal þeirra sem hafa áhrif á þetta, því 21% foreldra höfðu sett inn nöfn og myndir af börnum sínum, sem gátu leitt til eineltis (ConsumerReports.org, 2011). Marga foreldra skortir stafræna hæfni til að geta verndað, aðstoðað og leiðbeint börnum sínum í stafrænum heimi.
Efni sem fólk sér á netinu hefur áhrif á skoðanir þess og athafnir, og þess vegna er brýnt að það geri sér grein fyrir því að ekki er hægt að treysta því að búið sé að sannreyna allar staðreyndir sem þar birtast. Til dæmis sýnir rannsókn nokkur að 34% evrópskra netnotenda hafa ákveðið að kaupa ekki tiltekna vöru eftir að hafa lesið neikvæða umsögn um hana í bloggfærslu (Hargittai, 2009). Á netinu er það lesandinn/viðtakandinn sem ber ábyrgð á því að meta hversu trúverðugar upplýsingarnar eru, og mikilvægt er að fólk átti sig á þessu.
Stafræn hæfni skiptir máli bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki ef ætlunin er að fylgjast með tækniþróuninni og nýta hana til að gera vörur og ferla skilvirkari og finna upp á nýjum. Þeir sem ekki hafa hæfnina til að nýta sér stafræna miðla missa af þeim tækifærum sem tæknin býður upp á. Þetta getur orðið til þess að gjá myndist milli þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem notfæra sér stafræna tækni og hinna sem gera það ekki. Stafrænt tengslanet er líka mikilvægt hverjum þeim sem vinnur frumkvöðlastarf, því auðvelt er að búa sér til vettvang á netinu til að kynna starfsemi sína, jafnvel þótt markhópurinn sé þröngur.
Rannsóknir sýna að upplýsinga- og fjarskiptatækni ýtir undir hefðbundnar tegundir félagslegs misréttis. Þeir efnahagslegu, félagslegu, heilsufarslegu, menningarlegu og samfélagslegu kostir sem fylgja stafrænni hæfni eru aðgengilegri þeim sem þegar búa við þessi forréttindi heldur en þeim sem skortir þau, svo sem minna menntuðum, atvinnulausum eða eldri borgurum án félagslegs stuðnings (Van Deursen, 2010). Þess vegna verður að grípa til aðgerða sem stuðla að aukinni stafrænni hæfni hjá öllum borgurum, óháð aldri, félagslegu umhverfi eða fyrri reynslu þeirra af upplýsinga- og fjarskiptatækni.
Fólki sem býr yfir mikilli stafrænni hæfni getur nýtt sér fjölbreyttan vettvang stafrænna miðla til félagslegrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs, svo sem með því að stofna til félagslegra verkefna í nærsamfélagi sínu eða rétta hjálparhönd ef áföll dynja yfir.
Tæknileg hæfni getur einnig haft fjárhagslegan ábata fyrir almenna notendur, sem geta þá leitað að lægra verði og keypt og selt vörur og þjónustu eftir mismunandi leiðum.
Stafræn verkfæri og miðlar opna einnig á nýjar leiðir til símenntunar. Með þeim er hægt að þróa nýstárlegar kennsluaðferðir og kenna fólki á einstaklingsmiðaðan hátt, ásamt því að gefa kost á auknu samstarfi á milli skóla.
Til eru tengslanet fagfólks á mismunandi sviðum þar sem það getur miðlað og bætt við sig þekkingu á óformlegan hátt, jafnvel án þess að hafa sett sér sérstaklega sem markmið að læra (Ala- Mutka, 2010). Internetið færir fólki sem starfar hjá sama fyrirtæki eða innan sömu starfsstétta nýjan og skilvirkan vettvang til að fá aðstoð við að leysa verkefni sín og auka við þekkingu sína með hjálp fólks um allan heim.
Stafrænir miðlar, svo sem samfélagsmiðlar, eru annar vettvangur þar sem fólk getur látið í ljós skoðanir sínar og átt í samskiptum við aðra. Rannsókn á bloggsíðum sýndi meðal annars að bloggarar notuðu síðurnar sínar til skapandi tjáningar (77%), til að deila persónulegri reynslu (76%) og hagnýtri þekkingu (64%) (Lenhart og Fox, 2006). Einnig getur fólk birt verkefni sín og listsköpun á netinu og þannig komið sér á framfæri og eflt ímynd sína og trúverðugleika.
Stafrænir miðlar veita aðgang að fjölda heimilda þar sem nálgast má nýjustu upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Þannig er hægt að halda sér upplýstum um aðstæður í nánasta umhverfi sem og annars staðar í heiminum. Þessir miðlar gefa fólki einnig kost á að viðra eigin hugleiðingar og hugmyndir og vekja athygli á vandamálum, til þess að gera þau sýnilegri.
Tilkoma umræðuvettvangs af ýmsu tagi á netinu gefur sjúklingum og foreldrum barna með sjaldgæfa sjúkdóma einnig áður óþekktan stuðning. Þar eru það einstaklingar sem deila þekkingu sinni og leggja fram aðstoð en einnig sérfróðir aðilar, og sums staðar er umræðunum jafnvel stýrt af fagfólki. Til er gríðarlegt magn af upplýsingum um heilbrigðismál á netinu og ein rannsókn sýndi að 83% fullorðinna netnotenda nota vefinn til að afla sér heilsufarsupplýsinga (Fox og Jones, 2009).
Samfélagslegar tækninýjungar hjálpa til við að koma auga á og skapa nýjar tengingar út frá áhugasviðum, gildum eða skoðunum. Rannsóknir hafa sýnt að mikil stafræn hæfni getur til dæmis hjálpað innflytjendum og þjóðernisminnihlutum að aðlagast samfélagi og menningu (Redecker, Hache og Centeno, 2010).
Stafræn tækni hjálpar okkur að halda sambandi við fólkið sem við þekkjum. Tæknin ýtir undir samskipti fólks sem á erfitt með að hittast augliti til auglitis (til dæmis eldra fólk, samstarfsfólk með starfsstöðvar á mismunandi stöðum eða fjölskyldumeðlimir sem búa langt hver frá öðrum). Rannsóknir sýna einnig að eldri borgarar sem lært hafa að nota netið eru jákvæðari í garð þess að eldast og upplifir aukinn félagslegan stuðning og samskipti (Cody o.fl., 1999).
Eins og nefnt hefur verið hefur stafræn hæfni eða skortur á henni áhrif á mörgum sviðum lífsins. Í þessum flókna heimi faghugtaka og ólíkra lífsmynstra er gagnlegt að flokka stafræna hæfni niður í nokkur meginsvið.
Hér má sjá líkan þar sem stafrænni hæfni er skipt í fjögur meginsvið. Í raunveruleikanum er auðvitað skörun milli þessara sviða, og fjölda athafna er ekki hægt að flokka niður á tiltekið hæfnisvið. Þegar við einföldum flokkunina í þessi fáu meginsvið dregur úr nákvæmninni, en á móti kemur að við fáum skýrari og einfaldari yfirsýn yfir sviðið, sem er einmitt markmiðið þegar kortleggja á stafræna hæfni.
Getan til þess að skilgreina, finna, sækja, geyma, skipuleggja og greina stafrænar upplýsingar, og meta gildi þeirra og tilgang.
Getan til að eiga í samskiptum og samstarfi við hópa fólks á netinu og vera fær um að nota viðeigandi samskiptamáta, tón og hegðun.
Getan til að búa til, stilla og breyta stafrænu efni, ásamt því að leysa tæknileg vandamál og finna nýjar leiðir til að nýta sér kosti tækninnar.
Getan til að nota stafræna tækni á öruggan og sjálfbæran hátt hvað varðar gögn, auðkenni og vinnutengt tjón, ásamt því að huga að löggjöf því tengdu,réttindum og skyldum.
Ofangreind meginsvið eru þó enn frekar fræðileg og erfitt að hagnýta sér þau. Til þess að geta sett skýr markmið verður þess vegna að brjóta þessi svið niður í skýrt afmarkaðri undirsvið.
Næst má sjá hvernig hverju meginsviði hefur verið skipt í fjögur stafræn hæfnisvið.
Upplýsingar: Getan til þess að skilgreina, finna, sækja, geyma, skipuleggja og greina stafrænar upplýsingar, og meta gildi þeirra og tilgang.
Dæmi um starfsgreinar sem koma sterkt inn á sviðinu „Upplýsingar“ eru bókasafnsfræði, kennslustörf og rannsóknir.
Til frekari aðgreiningar á meginsviðinu „Upplýsingar“ hefur því verið skipt í eftirfarandi fjögur hæfnisvið. Gefin eru dæmi um hvert stafrænt hæfnisvið til að skýra þau enn betur.
Getan til að sníða, skipuleggja og geyma stafrænt efni þannig að það haldist öruggt en aðgengilegt.
Dæmi
Hugar að öryggi, aðgengileika og lagalegum kröfum þegar gögn eru sett í geymslu.
Skilur reglurnar um hvar og hvernig skuli geyma efni.
Getur breytt sniði mynda og vistað þær á hentugasta sniðinu hverju sinni (t.d. .jpg, .png eða .raw).
Þekkir kosti og galla þess að geyma gögn í skýinu, á hörðum diski eða í færanlegu tæki.
Getan til þess að leita að og finna stafrænar upplýsingar, vafra á milli mismunandi vefheimilda og sía burt óviðeigandi upplýsingar.
Dæmi
Ert fljót(ur) að rannsaka flókið efni og finna staðreyndir, fræðsluefni eða sérfræðinga með leit í viðeigandi leitarvélum.
Getur flokkað leitarniðurstöður eftir dagsetningu, höfundi, miðli eða skráarsniði með notkun sía.
Leitar til dæmis án umhugsunar fyrst á netinu þegar finna þarf upplýsingar eins og leiðarkerfi strætisvagna, staðreyndir, afgreiðslutíma og fréttir.
Getan til að meðhöndla, skilja og leggja gagnrýnið mat á stafrænar upplýsingar sem eru sendar eða mótteknar.
Dæmi
Hugar ávallt vel að því hvort upplýsingar eins og áhugamál, prófílmynd, hjúskaparstaða og trúarskoðanir geti haft áhrif á horfur á vinnumarkaði síðar meir.
Er kunnugt um hvernig leitarþjarkar yfirfara og skrá efni sem til er á netinu og hvernig niðurstöðurnar eru svo birtar notandanum.
Kannar til dæmis alltaf trúverðugleika höfundarins og vefsvæðisins og hvenær upplýsingarnar birtust.
Getan og vilji til að nota sjálfsafgreiðslulausnir á netinu.
Dæmi
Ert örugg(ur) við notkun greiðslukortaupplýsinga, rafrænna skilríkja, kennitölu o.s.frv.
Getur til dæmis notað netið til að tilkynna um breytt lögheimili, sótt um frístundakort, pantað tíma hjá lækni eða greitt reikninga í netbanka.
Leitar alltaf fyrst að sjálfsafgreiðslulausn á netinu (t.d. vegna tímapantana eða miðakaupa) áður en hringt er eða mætt er á staðinn
Samskipti: Getan til að eiga í samskiptum og samstarfi við hópa fólks á netinu og vera fær um að nota viðeigandi samskiptamáta, tón og hegðun.
Dæmi um starfsgreinar sem koma sterkt inn á sviðinu „Samskipti“ eru blaðamennska, mannauðsmál, ferðaþjónusta og markaðsstörf.
Til frekari aðgreiningar á meginsviðinu „Samskipti“ hefur því verið skipt í eftirfarandi fjögur hæfnisvið. Gefin eru dæmi um hvert stafrænt hæfnisvið til að skýra þau enn betur.
Getan og sýndur áhugi á að nýta stafræna miðla, til tjáskipta, eða gera sig sýnilegan(n) á annan hátt á stafrænum miðlum.
Dæmi
Skilur hvernig nota má internetið til góðs sem og ills, til þess að rökræða og deila pólitískum boðskap, svo sem með netherferðum.
Þekkir til dæmis ýmiss konar samskiptavettvang til persónulegra og faglegra nota, svo sem Meetup, Pinterest, Flickr, LinkedIn, Blogster, YouTube og Twitter.
Skrifar til dæmis oft ummæli við fréttir á vefmiðlum, heldur úti bloggsíðu, deilir efni á samfélagsmiðlum eða tekur virkan þátt á starfstengdum samræðuvettvangi.
Getan til að nota tækni og mismunandi miðla til teymisvinnu, samræmingar og vinnu eftir sameiginlegum ferlum.
Dæmi
Getur til dæmis vel komið skoðun eða tilfinningu til skila til viðtakandans með því að gefa texta ákveðinn blæ.
Getur til dæmis skrifað tölvupóst fumlaust, komið meiningu þinni skýrt á framfæri og forðast misskilning.
Þekkir grundvallarreglur stafrænnar samvinnu og kannt að skipuleggja verkefni í hóp.
Getan til þess að laga hegðun sína, tón, orðalag og tækninotkun að aðstæðum og félagslegum samskiptum hverju sinni.
Dæmi
Hefur ákveðið fyrirfram hvernig bregðast skuli við særandi ummælum eða ókurteisum tölvupósti.
Getur sett þig í spor annarra og skilið tilfinningar þeirra, hugsanir og viðhorf (jafnvel án þess að hafa hitt viðkomandi augliti til auglitis).
Getur til dæmis beitt mismunandi orðnotkun, slangri, myndum, litum eða margmiðlunartækni eftir því hver viðtakandinn er.
Getan til að eiga samskipti á margs konar mismunandi samskiptamiðlum, ásamt því að geta valið hentugasta miðilinn til samskipta við tiltekinn viðtakanda eða hóp.
Dæmi
Skilur til dæmis kosti og ókosti mismunandi samskiptamáta, svo sem síma, tölvupósts, spjallskilaboða, myndfunda og SMS-skilaboða.
Kannar alltaf þær reglur sem samþykkja skal áður en nota má þjónusta á netinu.
Í vissum tilfellum segir mynd meira en þúsund orð, en stundum er betra að notast t.d. við stutt myndskeið.
Dæmi um starfsgreinar sem koma sterkt inn á hæfnisviðinu „Framkvæmd“ eru hönnun, forritun og störf í upplýsingatækni.
Til frekari aðgreiningar á meginsviðinu „Framkvæmd“ hefur því verið skipt í eftirfarandi fjögur hæfnisvið. Gefin eru dæmi um hvert stafrænt hæfnisvið til að skýra þau enn betur.
Getan til að búa til, setja saman og breyta stafrænu efni á mismunandi sniði, s.s. myndum, texta, upptökum eða hljóði.
Dæmi
Getur breytt sniði mynda og vistað þær á hentugasta sniðinu hverju sinni (t.d. .jpg, .png eða .raw).
Finnst til dæmis gaman að búa til efni sem er alfarið stafrænt, til dæmis mynd, tónlist eða myndskeið.
Getur til dæmis breytt myndum, myndskeiðum, texta eða hljóði í forritum á borð við Photoshop, Final Cut eða Word.
Geta og vilji til að fylgjast með þróun tækninnar og kynna sér ný tækifæri í tækninotkun.
Dæmi
Lærir til dæmis hratt að nota ný tæki, þjónustu á netinu eða nýjan hugbúnað.
Átt auðvelt með að skipta yfir í ný tæki og hugbúnað, án þess að það valdi ergelsi eða streitu.
Fylgist til dæmis með nýjum snjallsímum sem koma á markaðinn og hefur gaman af því að tala um nýjustu tækin og tæknilegar nýjungar.
Getan til þess að gera breytingar á eða þróa stafrænar lausnir sem geta leyst verkefni á sjálfvirkan hátt, að hluta til eða að öllu leyti.
Dæmi
Kannt að nota gagnagrunnsforrit á borð við Excel, MySQL, Microsoft Access eða Oracle til að geyma gögn eins og við á.
Þekkir til ferlisins hvernig hugmynd er þróuð í gegnum forritun og verður að fullbúnum hugbúnaði.
Skilur til dæmis hvenær hentar að skipta út skyldubundnu námskeiði fyrir sveigjanlegri rafræna þjálfun, og hvenær betra er að halda fjarfund í stað vikulegra funda.
Getan til þess að stilla forrit og kerfiseiningar eftir eigin þörfum, og leysa tæknileg vandamál eða verkefni.
Dæmi
Lætur ekki truflast af pirringi eða gefst upp þegar tæknileg vandamál koma upp.
Ert óhrædd(ur) við að prófa hluti án þess að vita nákvæmlega hvað gerist (svo sem þegar prentari prentar ekki).
Skilur samhengið milli mismunandi hluta á borð við örgjörva, minni, móðurborð, snúrur (s.s. HDMI) og netbeina.
Dæmi um starfsgreinar sem koma sterkt inn á sviðinu „Öryggi“ eru öryggisstörf, lögfræðistörf og iðjufræði.
Til frekari aðgreiningar á meginsviðinu „Öryggi“ hefur því verið skipt í eftirfarandi fjögur hæfnisvið. Gefin eru dæmi um hvert stafrænt hæfnisvið til að skýra þau enn betur.
Þekking á gildandi lögum og leyfum varðandi hegðun, upplýsingar og efni í tæknilegu samhengi.
Dæmi
Veist til dæmis hvenær hótanir, áreitni, stríðni, rógburður og launung þróast úr óæskilegri hegðun yfir í brotlega.
Athugar til dæmis hvort leyfilegt sé að nota mynd áður en hún er nýtt í eitthvað.
Þekkir til laga um markaðssetningu, rógburð, ruslefni, höfundarrétt, kúgun, mismunun, eignarhald myndefnis og vafasöm viðskipti á netinu.
Getan til að vakta og vernda persónuupplýsingar sínar á netinu, og átta sig á þýðingu stafræns fótspors síns.
Dæmi
Hugar ávallt vel að því hvort persónulegar upplýsingar eins og prófílmynd, hjúskaparstaða, stjórnmálaskoðanir og trúarskoðanir geti haft áhrif á horfur á vinnumarkaði síðar meir.
Getur leitað að og fundið persónuupplýsingar eins og prófílmynd, ummæli sem viðkomandi hefur skrifað, heimilisfang, atvinnu, menntun o.fl.
Skilur til dæmis hvernig gagnrýni eða hrós sem látið er falla opinberlega í garð fólks eða fyrirtækja getur haft afleiðingar.
Getan til að greina og vernda viðkvæm gögn og skilja hættuna sem í þeim felst.
Dæmi
Kannt til dæmis að nýta tvíþætta auðkenningu eða lykilorðsvernd á skjölum, ásamt því að tryggja að boðleiðin sé örugg við sendingu þeirra.
Ert með leiðir til að koma auga á þegar óprúttnir aðilar reyna að komast yfir viðkvæmar upplýsingar frá notendum, svo sem notandanafn, lykilorð eða greiðslukortaupplýsingar.
Hefur það til dæmis fyrir vana að nota tákn, tölur og hástafi í lykilorðum, og notar ekki nöfn á fjölskyldumeðlimum eða gæludýrum í lykilorðum.
Getan til að gæta bæði að líkamlegri og andlegri heilsu í tæknilegu umhverfi nútímans.
Dæmi
Þekkir til dæmis að höfuðverkur, þokukennd sjón eða verkir í úlnlið geta verið merki um of mikla notkun.
Þekkir algengustu flýtiskipanir, svo sem að fara til baka, leita, taka skjáskot, feitletra texta, fara milli atriða og auka aðdrátt (Ctrl +).
Þekkir til dæmis rétta líkamsstöðu, skjáhæð og fótastöðu, og bestu vinnutækin fyrir heilsuna.